Diljá Mist
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Diljá Mist er hæstaréttarlögmaður og fjölskyldukona úr Grafarvoginum sem situr sem þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Það hefur sjaldan verið meiri þörf á því að Sjálfstæðisflokkurinn sé öflugur málsvari einstaklingsfrelsis og borgaralegra mannréttinda andspænis sívaxandi afskiptum og forræðishyggju. Hver og einn á sig sjálfur, ræður sér sjálfur, og ber ábyrgð á sér sjálfum, svo lengi sem hann skerðir ekki frelsi annarra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur látið hrekja sig í vörn í mörgum grundvallarmálum. Því þarf að linna og talsmenn flokksins þurfa að vera reiðubúnir að taka þennan slag. Það mun enginn annar gera.
Ég vil og ætla að gera hagsmuni Reykvíkinga að baráttumáli ef ég verð þingmaður þeirra að loknum kosningum. Þingmenn eiga að vinna fyrir sína umbjóðendur og mér finnst fráleitt að eitthvað annað eigi að gilda um þingmenn höfuðborgarinnar. Ég mun ekki sitja hjá heldur láta til mín taka á þingi um mál sem brenna á Reykvíkingum, hvort sem það eru húsnæðismál, dagvistunarmál, skólamál eða öldrunarmál. Ég þekki öll þessi mál af eigin raun sem móðir ungra barna og íbúi í Grafarvogi og mun beita mér af alefli í þágu þeirra.
Það eru hagsmunir okkar allra að snúa við neikvæðri þróun í loftslagsmálum. Við verðum að leita arðbærra lausna og nýta krafta og kosti einkaframtaksins. Þar erum við Íslendingar í kjörstöðu vegna þekkingar og færni þegar kemur að grænum lausnum. Það þarf að vera hagnaðarvon í því að taka afstöðu með umhverfinu, annars er þessi barátta töpuð. Boð og bönn hafa verið reynd í áratugi og ekki skilað fullnægjandi árangri. Það er ekki bara tímabært að breyta um kúrs, það er síðasti séns. Sjálfstæðismenn voru í fararbroddi umhverfissinna lengst af og það er tímabært að svo verði á nýjan leik.
Sjálfstæðisflokkurinn á að vera málsvari framtaks og sjálfsbjargarviðleitni. Efnahagsleg velferð okkar, atvinnustig og verðmætasköpun, er grundvölluð á framtaki einstaklinga, sérstaklega þeirra sem reka og vinna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Alltof flókið regluverk og níðþungar álögur eru að sliga rekstur margra fyrirtækja. Eftirlitið er of mikið og kröfur til aðila með afmarkaðan og einfaldan rekstur úr hófi fram. Afleiðingin er sóun og minni framleiðni sem leiðir til atvinnuleysis og lakari lífskjara.
Diljá Mist er fædd í Reykjavík 21. desember 1987. Hún lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 2006, BA-prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2009, MA-prófi í lögfræði árið 2011 og LL.M. gráðu í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti árið 2017 frá sama skóla.
Hún öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi árið 2012 og hæstaréttarlögmannsréttindi árið 2018 og starfaði sem fulltrúi á lögmannsstofunni Lögmáli frá árinu 2011 til ársins 2018 þegar hún gerðist aðstoðarmaður utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Störf Diljár innan ráðuneytisins hafa m.a. snúið að þróunarsamvinnu sem er orðinn veigamikill hluti af utanríkismálum Íslands og leiddi hún starfshóp um innleiðingu mannréttindamiðaðrar þróunarsamvinnu í tvíhliða samstarfi ásamt því að starfa í starfshópi um stuðning utanríkisþjónustunnar við útflutningsgreinar.
Diljá Mist hefur tekist á hendur ýmis verkefni á vettvangi Sjálfstæðisflokksins frá 17 ára aldri. Hún hefur gegnt stöðu ritara og varaformanns Heimdallar, annars varaformanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, setið í stjórn hverfafélags Sjálfstæðisflokksins í Grafarvogi, setið í stjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins og átti sæti í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar. Diljá tók sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 2009 og situr sem vararborgarfulltrúi flokksins í Reykjavík.
Diljá Mist náði 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar 2021 og var kjörin 6. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður í kosningunum. Hún á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd, utanríkismálanefnd og gegnir embætti 4. varaforseta Alþingis.
Eiginmaður Diljár er Róbert Benedikt Róbertsson, fjármálastjóri, og saman eiga þau tvö börn. Foreldrar Diljár Mistar eru þau Einar S. Hálfdánarson og Regína G. Pálsdóttir. Fjölskyldan býr í Grafarvogi sem er uppeldishverfi Diljár. Diljá hefur alla tíð látið sig varða málefni Grafarvogsins og unnið ötult starf í að bæta þjónustuna í hverfinu.
Diljá Mist var í viðtali hjá Ísland í dag þar sem hún deildi sögunni af Súsí systir sinni sem lést eftir ofneyslu eiturlyfja fyrri 14 árum síðan.
Þar munu birtast allar nýjustu fréttir af framboðinu
dilja.mist@althingi.is